OPINN BORGARAFUNDUR #7

OPINN BORGARAFUNDUR #7
Í Iðnó, fimmtudaginn 8. janúar kl 20-22.


Fundarefni
: Mótmæli (ólík viðhorf, ólíkar aðferðir, sömu markmið?), aðferðafræði mótmæla og borgaraleg óhlýðni.


Frummælendur

  • Hörður Torfason – Raddir fólksins
  • Eva Hauksdóttir – Aðgerðasinni
  • NN anarkisti
  • Stefán Eiríksson – Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins

Auk þeirra munu Katrín Oddsdóttir, laganemi og talsmaður Neyðarstjórnar Kvenna, Sigurlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Nýrra tíma og Þórhallur Heimisson, prestur, taka þátt í pallborðsumræðum ásamt fleirum og svara spurningum viðstaddra.
Þá hefur Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra sérstaklega verið boðin þátttaka í pallborðsumræðunum.
Hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Hvetjum ennfremur alla fjölmiðlamenn og konur til að mæta og taka þátt.


Fyrirkomulag

Fundarform verður með sama sniði og áður, þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og fundargestir úr sal fá að tjá sig eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga. Hver aðili hefur tvær mínútur til að tjá sig svo gott er að vera vel undirbúinn.

 
Við hvetjum fundargesti til þess að mæta tímanlega vegna takmarkaðs húsrýmis.
Sýnum borgaralega virkni og fjölmennum á fundinn. Spyrjum, hlustum og fræðumst.

Framundan

Laugardaginn 27. des kl. 16.00 verður opið hús í miðstöðinni okkar að Borgartúni 3, kaffi og með (ef allar kökurnar verða ekki búnar eftir aðventuna )

Mánudaginn 29. des kl. 20.00 verður undirbúnings- og umræðufundur um komandi borgarafundi

Laugardaginn 3.jan 2009 kl.16.00 verður opið hús í Borgartúni 3

Mánudaginn 5. jan kl. 20.00 verður undirbúnings- og umræðufundur

 

Við stefnum að stórum fundi í Háskólabíó mánudaginn 12 jan kl. 20.00.
Einnig er til athugunar að hafa minni fund t.d. í vikuni 5-9 jan ræðum það betur í næsta hitting

 
Gleðileg jól

Opinn borgarafundur

Næstkomandi miðvikudagskvöld verður opinn borgarafundur kl. 20:00-22:00 í fundarsal á fjórðu hæð í miðstöðinni okkar, Borgartúni 3. Umræðuefni fundarins verður spilling og hringamyndun í viðskiptalífinu.
.
Gestir fundarins verða Óli Björn Kárason, blaðamaður og rithöfundur, og Gunnar Axel Axelsson, viðskiptafræðingur, en þessir menn hafa verið að kynna sér þessa hluti náið.
.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál eru hvattir til að koma í Borgartún 3 og heyra hvað fram fer á fundinum.

Peningar atvinnuleysistryggingasjóðs

Carlos Ferrer sendi okkur þessa hugmynd

Atvinnuleysistryggingarsjóður hefur 15 milljarða króna eigin fjár. Það dugar fyrir 6% atvinnuleysi í eitt ár. Hver prósenta atvinnulausra kostar 3 milljarða.

.

Mín tillaga er sú að ríkið taki lán eða setji af lánsfé a.m.k. 40 milljarða eða 10% af IMF láninu í þennan sjóð. Ríkið tryggði 6 – 10% atvinnulausra lágmarkstekjur í a.m.k. 3 ár. Síðan leggi ríkið í samfélagslega ábatasamar og mannaflsfrekar fjárfestingar s.s. uppbyggingu almenningssamgangna, auknar samskiptaleiðir, fjölmiðlun, nýjar menntunarleiðir og frumkvöðlaverkefni. Fólk sem missir atvinnu nú, er líkast til vel menntað og ætti því að fá störf við hæfi við þessa uppbyggingastarfsemi.

.

Eftir þrjú ár ætti annað hvort kreppan að vera að grynnka eða þessar aðgerðir farnar að skila sér hægt og rólega í samfélagi sem er færara um að bjarga sér en það er nú.

.

Hugmyndin er tekin að láni frá B. Obama, verðandi forseta BNA sem vill á svipaðan hátt koma bandarísku samfélagi á flot. Nema hvað þar er áhersla á byggingar, breiðband og vegi, sem er í tiltölulega góðum málum hér.

.

Carlos Ferrer

Ný myndskeið komin á vefinn og YouTube

Myndskeið af erindum frummælenda á síðasta borgarafundi eru komin hingað á vefinn.
Frummælendur voru:

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ

Ásta Rut Jónasdóttir, húsmóðir

Vésteinn Gauti Hauksson, markaðsstjóri

Erindi frummælenda frá upphafi er að finna undir liðnum Frummælendur hér að ofan. Öll myndskeið er einnig hægt að skoða beint frá YouTube.

Vel mætt á borgarafund með forkólfum verkalýðshreyfingarinnar

borgarafundurhaskolabio2-072.jpgborgarafundurhaskolabio2-048.jpgborgarafundurhaskolabio2-047.jpg

Stóri salur Háskólabíós var nær fullsetinn á fimmta opna borgarafundinum í kvöld. Allir helstu forkólfar verkalýðshreyfinga og lífeyrissjóða sátu fyrir svörum, en meðal þeirra voru Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands, Gunnar Páll Pálsson formaður VR, Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins, Ögmundur Jónasson formaður BSRB, Eiríkur Jónsson formaður KÍ, Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóðanna. Einnig mætti Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, var einnig frummælandi á fundinum og ræddi aðgerðir til aðstoðar heimilum í fjárhagsvandræðum.

Annar frummælandi var Ásta Rut Jónasdóttir, húsmóðir. Hún gagnrýndi verðtrygginguna harðlega sem og aðgerðarleysi stjórnvalda og sinnuleysi verkalýðshreyfingarinnar.

Síðasti frummælandinn var Vésteinn Gauti Hauksson, markaðsstjóri sem lýsti vanda heimilanna á mjög persónulegan hátt en hann hefur tekið þá ákvörðun að hætta að borga af íbúðalánunum sínum þar sem hann sjái enga aðra leið.

Mikill hiti var í fundargestum út í sal. Margir vildu bera fram spurningar og líkt og áður komust færri að en vildu. Spurningar úr sal snerust að mestu um verðtrygginguna ásamt ítökum atvinnurekenda í lífeyrissjóðum og launamál forystumanna verkalýðshreyfinganna. Einn fundargesta stakk upp á að efnt yrði til allsherjarverkfalls til að knýja ríkisstjórnina frá völdum. Salurin tók vel í þá hugmynd en forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sögðu að slíkar aðgerðir væru ólöglegar.

Erindi frummælenda, ljósmyndir og myndskeið frá fundinum verða birt hér á vefnum innan tíðar.

SMS kosning eða heimasíðukosning að hætti Sviss

Ingvaldur sendi okkur hugmyndir um opnara lýðræði

Komið sæl og þakka fyrir málefnalega og góða fundi

Ingibjörg segir fundamenn tala hvern fyrir sig og Geir segir að þetta sé ekki þjóðarpúls en líklega eru 9 á bakvið hvern sem mætir á slíkan fund með sömu skoðun

Skýr skilaboð væri td. sms kosning og jafnfram gæti það verið fjáröflun fyrir fundina, td 30 kall hvert sms

Það sem mest hvílir á fólki held ég að sé, seðlabanki, ráð og stjórn, FME æðstu menn og stjórn, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra í burt, nýtt fólk í bankana þannig að þar sé ekki verið að díla með eignir eins og ólöglegan varning.

Einfalt kerfi að kjósa um slíkt með sms, enn áhrifameira væri að setja upp heimasíðu með kosningakerfi líkt og þeir í Sviss gera, held að tölvukunnáttumenn yrðu ekki lengi að setja upp nokkuð trygga síðu

Þá fengju Geir og Solla beint í æð hvað fólk vill

Kv. Ingvaldur

OPINN BORGARAFUNDUR #5

Verður haldinn í Háskólabíó mánudaginn 8. desember kl. 20:00 – 22:00.

Forysta verkalýðshreyfinga, fulltrúar lífeyrissjóða, félagsmála- og viðskiptaráðherrar hafa fengið formlegt fundarboð til að koma og svara spurningum almennings milliliðalaust.

Tilgangur fundarins er að gefa hinum almenna borgara kost á að spyrja ráðamenn beinna spurninga og leyfa ráðamönnum að heyra beint frá þeim aðilum sem þeir þjóna.

Fundarstjóri: Gunnar Sigurðsson, leikstjóri

Frummælendur:
Ásta Rut Jónasdóttir, húsmóðir
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands
Vésteinn Gauti Hauksson markaðsstjóri

Form fundar:
Þrír frummælendur hefja umræðuna (5 mínútur hver). Þegar þeir hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga. Fundarstjórn og tímavarsla verður sem fyrr tekin föstum tökum í nafni lýðræðislegrar umræðu.

Hvetjum fundargesti til að mæta með tilbúnar og gagnorðar spurningar.

Áheyrnarfultrúar

Gísli sendi okkur hugmynd að útfærslu á því að þjóðin fái áheyrnarfulltrúa í nefndum þingsins.

Mér lýst mjög vel á tillöguna um áheirnarfulltrúa almennings í nefndir og á ríkisstjórnarfundi og vil koma með hugmynd um hvernig mætti útfæra þetta.

Ríkisstjórnarfundir og nefndafundir væru einfaldlega í beinni útsendingu á netinu.
Ef fundarmenn telja að það gæti valdið skaða að fundarefni sé sent beinnt út verði fundur tekinn upp en ekki aðgengilegur á netinu fyrr en að ákveðnum tíma liðnum.

Annars væri fróðlegt að heyra hjá t.d. Þorgerði Katrínu hvers vegna þetta er ekki hægt.

Gísli Sigurgeirsson.