Sláum skjaldborg um Alþingi

Samtökin Nýjir tímar hvetja alla til að mæta niður á Austurvöll klukkan 12:00 á morgun, miðvikudag – þann 19. nóvember, taka höndum saman og mynda SKJALDBORG utan um Alþingishús OKKAR íslendinga – enn og aftur! 

Allir sem geta eru hvattir til að taka sér hádegishlé og sýna samstöðu.

Öðruvísi sjáum við aldrei neinar breytingar! 

Friðsamleg Mótmæli við Alþingishúsið á morgun!

Magnaður borgarafundur á troðfullu NASA

Borgarafundurinn á NASA heppnaðist með einsdæmum vel. Troðfullt var út úr dyrum og stemmningin mikil. Að þessu sinni var umtalsefni ábyrgð fjölmiðla.

Að vanda voru fjórir frummælendur sem öll fluttu mögnuð erindi; þau Irma Erlingsdóttir, bókmenntafræðingur, Eggert Briem, stærðfræðingur, Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður og Davíð A. Stefánsson, bókmenntafræðingur.

Í pallborði sátu: Ólafur Stephensen ritstjóri Morgunblaðsins, Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins, Broddi Broddason fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttamaður hjá Stöð2 og Bylgjunni, Reynir Traustason ritstjóri DV, Egill Helgason sjónvarpsmaður og Arna Schram frá Blaðamannafélagi Íslands.

Fundarstjóri var Gunnar Sigurðsson leikstjóri og tilkynnti hann á fundinum að næsti fundur verði haldinn í Háskólabíó næsta mánudag og þá verði gerð krafa um að ríkisstjórnin mæti og svari spurningum almennings umbúða- og milliliðalaust. Við þessa tilkynningu upphófst mikið lófatak og reis fólk úr sætum.

Myndir og myndskeið birtast hér á vefnum innan skamms.

Við sem stöndum að þessum fundum viljum svo að lokum koma fram kærum þökkum til gaesla.is, sem buðu sig fram til að mæta á svæðið og vera með gæslu endurgjaldslaust, og stóðu sig með prýði..

Mótmælafundur á Austurvelli, 15. nóvember.

Þegar ég gekk inn á Austurvöll rétt upp úr hálfþrjú á laugardag voru ekki komnir margir á svæðið. Nokkrir stóðu við sviðið og fylgdust með undirbúningnum og Siggi Pönk og félagar veittu Jóni Sigurðssyni félagsskap og dreifðu efni sínu til vegfarenda. Mér flaug reyndar í hug að kannski myndi kuldinn fæla fólk frá, en það gladdi mig þegar ég sá að þar vanmat ég mitt heimafólk. Þegar klukkan sló þrjú var kominn mikill mannfjöldi á Austurvöll, fólk stóð þétt og hvergi auðan blett að finna á vellinum þótt maður gerði sér kannski ekki almennilega grein fyrir því hversu mannhafið var mikið fyrr en maður sá yfirlitsmyndir þegar heim var komið.


Það var gerður góður rómur að frábærum ræðum ræðumannanna þriggja, Viðars Þorsteinssonar, Kristínar Helgu Gunnarsdóttur og Andra Snæs Magnasonar. Það var góður andi á meðal fólksins og þegar ég rétti fólki auglýsingu um borgarafundinn voru allir mjög jákvæðir og margir höfðu á orði að þau ætluðu alls ekki að missa af þessu.


Að fundi loknum hófst lítill hópur handa við að kasta eggjum og ávöxtum af ýmsum gerðum í Alþingishúsið. Þetta var fyrst gert á mótmælafundinum viku fyrr og virkaði þá svolítið sjokkerandi, enda Íslendingar ekki vanir mótmælum af þessu tagi. Í þetta sinn kippti maður sér lítið upp við þetta og ég staldraði ekki lengi við en tók þó eftir því að fjölbreytnin í skotvopnum hafði aukist, inni á milli eggjanna og tómatanna mátti líka greina melónur og aðra ávexti.


Á heildina litið voru þetta mjög vel heppnuð mótmæli. Góðar ræður, góð stemning og mikill mannfjöldi. Það er áhugavert að bera saman þessi mótmæli og mótmælin helgina áður. Satt að segja held ég að fánagjörningurinn 8. nóvember hafi verið ákveðinn vendipunktur í því að þjappa mannfjöldanum saman. Aktívistar sem kjósa beinar aðgerðir og finnst lítið til endalausra ræðuhalda koma hafa gjarnan verið litnir hornauga hér, eins og fólk kannast við frá umræðunni um Saving Iceland. En þarna brá hins vegar svo við að ólíklegasta fólk sýndi fánamanninum samstöðu og aðstoðaði hann í að komast undan handtöku, jafnvel fólk sem maður myndi á góðum degi kalla broddborgara. Fyrir vikið sáu aktívistarnir það kannski að almenningur stóð með þeim, og hugsanlega er það skýringin á því að manni fannst meiri samstaða í loftinu en áður. Aktívistarnir voru líka meira áberandi meðal fólksins núna, dreifðu prentuðu efni og var vel tekið.


Annað sem stóð upp úr að mínu mati var sú tilfinning að fólki finnist það hafa rödd og geti haft áhrif á framvindu mála. Íslensk stjórnmál hafa þróast þannig að kjósendur eru orðnir að passívum áhorfendum fremur en þátttakendum, en sú tilfinning að við getum breytt þessu var sérlega sterk þarna á Austurvelli 15. nóvember. Það voru margir ólíkir hópar sem tóku sig til að dreifðu prentuðum boðskap til fólksins sem flestir tóku áhugasamir við og greinilega er mikil gerjun í gangi.
Þegar ræðunum lauk og fólk fór á hreyfingu tók ég mér stöðu hjá frelsishetjunum Jóni Sigurðssyni og Sigga Pönk og dreifði auglýsingum til þeirra sem framhjá fóru. Þegar ég rétti gamalli og grannvaxinni konu auglýsingu, greip hún í hönd mína og sagði: “Ég stóð ekki hérna þegar þeir samþykktu Kárahnjúka. En ég ætla að standa núna, þótt það sé erfitt fyrir 87 ára gamla konu.”


—Guðmundur Erlingsson—

OPINN BORGARAFUNDUR #3

Á NASA við Austurvöll, mánudaginn 17. nóvember klukkan 20:00.

Í pallborði verða ritstjórar og fréttastjórar helstu fjölmiðla landsins, auk fulltrúa frá Blaðamannafélagi Íslands.

Hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Hvetjum ennfremur alla fjölmiðlamenn og konur til að mæta og taka þátt.

Til hvers?

Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.

Öllum stjórnmálamönnum, seðlabankastjórum, bankastjórum, fréttastjórum og öðru fjölmiðlafólki er boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.

  • Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.
  • Til að leita spurninga og svara um efnahagsástandið.

Fyrirkomulag:
Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5 mínútur hver):

 

Irma Erlingsdóttir, bókmenntafræðingur
Eggert Briem, stærðfræðingur
Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður
Davíð A. Stefánsson, bókmenntafræðingur

 

Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.

Fundarstjórn og tímavarsla verður sem fyrr tekin föstum tökum í nafni lýðræðislegrar umræðu.

Sýnum stuðning með þátttöku – spyrjum og heimtum svör – látum í okkur heyra.

Við ítrekum breyttan fundarstað. Hittumst á NASA kl. 20:00.

F.h. undirbúningshóps: Gunnar Sigurðsson leikstjóri (gus@mmedia.is – s: 897 7694) og Davíð A. Stefánsson bókmenntafræðingur (david@ljod.is – s: 864 7200).

Opinn borgarafundur á NASA næsta mánudag

Þriðji opni borgarafundurinn verður mánudaginn 17. nóvember kl. 20:00 á NASA.
Nú verður sjónum beint að ábyrgð og umfjöllun fjölmiðla á ástandinu. 
Fjölmiðlamenn munu mæta og sitja fyrir svörum.

Þegar hafa Egill Helgason og Sigmundur Ernir staðfest komu sína.
Enn er ekki komið á blað hverjir frummælendur verða og verður það auglýst síðar.
Fjölmennum og fyllum Nasa. Látum alla vita.

ATHUGIÐ breyttan fundarstað.